Important Update From the Founder Read message >

Eðalklúbbur, vínsmakk #2 vor 2019

Marbakkabraut 12

Tasted March 1, 2019 by bitdrerik with 344 views

Introduction

Að þessu sinni var þemað Bordeaux. Indriði hafði fengið flösku af Ch. Gruaud Larose 1982. Smakkið snerist nú dálítið mikið um það vín. Til viðbótar voru smökkuð vín frá öllum helstu rauðvínshéruðum Bordeaux, nema Graves. Smakkendur að þessu sinni voru: Indriði, Siggi frá Rannís, sem lagði til Gruaud flöskuna, Björgvin, Magnús, Lúðvík, Andri, Jón Loftur, Bolli og Jón Lárus.

Flight 1 - Svindl Frakki í byrjun (1 note)

Red
2014 M. Chapoutier Douro Eleivera Portugal, Douro
Smakkið var opnað með þessari flösku. Björgvin hélt því fram að þetta væri Frakki en við trúðum því mátulega. Okkur gekk hins vegar bölvanlega að finna landið. Enginn okkar mundi greinilega eftir Portúgal. Frekar vandræðalegt. Vínið sjálft var svona lala.

Flight 2 - Vinstri og hægri bakki á víxl (5 notes)

Tvö vín frá Margaux. Síðan eitt frá Castillon Côtes de Bordeaux. Eitt frá St. Émilion og að lokum eitt frá St. Estèphe

Red
2002 Château Lascombes France, Bordeaux, Médoc, Margaux
90 points
Býsna dökkt vín. Farinn að sjást aldur í jöðrum á víninu. Útihús, sveit, fita, smjör í nefinu. Eftir þyrlun þá komu fram allt öðruvísi tónar. Skógarbotn, súkkulaði, kakó, mynta, píputóbak. Heljarinnar botnfall. Í munni mátti svo finna svala, myntu. Mikill ferskleiki og flott jafnvægi. Mjúk tannín, fínt jafnvægi. Dökk ber. Í lokin kom smá biturleiki sem skemmdi fyrir. Hefði gefið 91 nema fyrir það.
Red
2014 Château Cantenac Brown France, Bordeaux, Médoc, Margaux
91 points
Talsvert yngra skv. lit heldur en Lascombes vínið. Gefur ekki mikið af sér til að byrja með. Eftir þyrlun fóru samt að koma smá glefsur. Menn töluðu um sultu, teppalykt og rauð ber. Enn síðar komu svo rifsber og hindber. Einnig smá eik. Á tungunni mikil sýra og mikil tannín. Krydd mátti líka finna. Pipar og anís. Gott vín og mörgum klössum fyrir ofan 2011 af sama víni sem við smökkuðum fyrir ekki svo löngu.
Red
2016 Château Le Rey Les Rocheuses France, Bordeaux, Libournais, Castillon Côtes de Bordeaux
88 points
Ungt og dökkt á litinn. Í nefi dökk ber, plómur, fjölvítamín, lýsi, kaffi, bruni, tóbak og harðfiskur (brúnn steinbítur). Þegar var smakkað á víninu þá mátti finna plómur, dökka ávexti, krækiber og krydd (pipar). Mjög mikil sýra og svo biturleiki í endann.
Red
2015 Château Quinault L'Enclos France, Bordeaux, Libournais, St. Émilion Grand Cru
87 points
Frekar dökkt. Smá brúnka í jaðri. Lykt af blautri borðtusku, útihús, súr lykt. Síðan reykjarlykt og tóbak. Ekkert sérstaklega viðfelldin lykt. Á tungunni rauðir ávextir og krydd, pipar. Grænir tónar í bragði, sem gætu nú átt eftir að mildast. Á þessari stundu ekkert sérstaklega spennandi vín. Spurning hvort hafi átt að bjarga einhverju við með því að setja vínið á vel ristaðar tunnur?
Red
2000 Château Meyney France, Bordeaux, Médoc, St. Estèphe
90 points
Frekar dökkt og mjög áberandi aldursmerki á litnum. Súr bleiulykt. Síðan plástur í nefi. Ekki mikill ávöxtur. Eftir smá stund kom svo leður og kanill. Mjög mikill ferskleiki í bragði. Mynta, tröllatré (eucalyptus). Rauðir ávextir, Mjög flott jafnvægi. Vín á mjög góðum stað akkúrat núna en getur örugglega haldist á svipuðu róli í nokkur ár.

Flight 3 - 37 ára öldungur frá St. Julien (1 note)

Red
1982 Château Gruaud Larose France, Bordeaux, Médoc, St. Julien
94 points
Mjög mikil ellimerki á litnum. Múrsteinsrauður orðinn. Mjög flottur ilmur sem breyttist hratt í glasinu. Fjós, blómailmur (fjólur), rafmagnseinangrun (tjara) og vélalykt. Vín í frábæru jafnvægi á tungunni og með ótrúlegan ferskleika miðað við að vera orðið 37 ára gamalt. Ekki mikill ávöxtur (kemur kannski ekki á óvart) en þarna mátti greina kaffi og kakó. Ótrúlega hress öldungur!

Flight 4 - Hægri og vinstri bakki á víxl. (3 notes)

Smakkinu lokað með þremur vínum. Fyrst víni frá St. Estèphe. Síðan einu frá Pomerol og að lokum kom einn Pauillac búi.

Red
2014 Château Cos Labory France, Bordeaux, Médoc, St. Estèphe
90 points
Frekar dökkt. Unglegur litur. Mjög lítill ilmur til að byrja með. Feimið vín. Eftir smá þyrlun fóru að koma smá ilmglefsur. Léttir ávextir, fenólar og karamella. Á tungunni: Mikill ferskleiki, flott sýra. Dökkir ávextir, súkkulaði, kaffi og smá brunatónar. Ágætis vín.
Red
2014 Clos l'Église (Pomerol) France, Bordeaux, Libournais, Pomerol
90 points
Frekar dökkt á litinn. Smá appelsínugul rönd. Ilmur, er einhver ilmur? Allavega ekki til að byrja með en smátt og smátt mátti m.a. finna svarta sultu, klístraðan púðursykur, vindlakassa og dökk ber. Á tungunni: Sulta, plóma og dökk eik. Í eftirbragðinu komu svo kaffi og kakótónar. Alls ekki slæmt vín en kostaði um 11 þúsund á sama tíma og flest hin vínin voru milli 6 og 7 þúsund og gáfu þessu lítt eða ekki neitt eftir. Ekki neitt sérstaklega góð kaup.
Red
2014 Château Pibran France, Bordeaux, Médoc, Pauillac
92 points
Þegar hér var komið sögu þá var gómurinn orðinn talsvert þreyttur. Þarna var þó um að ræða frekar dökkt vín sem var enn mjög unglegt. Ekki mikið að gerast í nefinu en samt fágaður ilmur. Á tungunni mátti greina banana, kakó töggur. Ferskleiki og gott jafnvægi. Fyrir mig þá komst þetta vín næst Gruaud öldungnum sem var nú bara í sér klassa í þessu smakki.

Closing

Mjög áhugavert smakk. Gruaud öldungurinn rúllaði yfir öll hin vínin með léttum leik. Af hinum vínunum fannst mér Ch. Pibran koma næst. Annars fannst okkur nú helsti lærdómurinn sem mátti draga af smakkinu að hægri bakkinn (St. Émilion og Pomerol) væru lokaðri og þyrftu meiri tíma en vínin frá vinstri bakkanum (St. Estèphe, Pauillac, St. Julien og Margaux) væru opnari og meira tilbúin. Allavega miðað við vínin sem smökkuð voru að þessu sinni.

© 2003-24 CellarTracker! LLC.

Report a Problem

Close