Important Update From the Founder Read message >

Eðalklúbbur, vínsmakk #3 vor 2021

Bólstaðarhlíð 29

Tasted April 30, 2021 by bitdrerik with 126 views

Introduction

Það voru þrjú efni á dagskrá í þessu smakki. Fyrst var hraðsmakk á sex hvítvínum. Því næst voru tekin fyrir nokkur rannsóknarefni á fjórum vínum og að lokum var heimshornaflakk, sem var að mestu leyti blint. Allir fastir klúbbfélagar voru viðstaddir.

Flight 1 - Hraðsmakk á sex hvítvínum. (6 notes)

White
2018 Cristian Frances Breton Priorat Va de Bòlid Spain, Catalunya, Priorat
86 points
Fyrsta vín af sex í hraðsmakki. Einungis gerðar um 300 flöskur af þessu víni. Frekar dökkt á litinn. Smjör í nefi. Einnig olíutónar. Gerjuð epli og steinefni. Frekar þunnt og karakterlaust á tungu. Samt þægileg sýra. Rabarbari. Sítrus í eftirbragði. Þægilegur ilmur en bragðið ekki til að hrópa húrra fyrir.
White
2017 Celler de Cérvoles Vinyes Altes de Les Garrigues Spain, Catalunya, Costers del Segre
89 points
Annað vínið í hraðsmakki. Miklu ferskari og betri ilmur heldur en af fyrsta víninu. Útihús, súrhey. Suðrænir ávextir, mangó, lychee. Mysa var nefnd líka. Talsverð sýra þegar bragðað er á því. Þétt bragð. Hunang, olíuborið leður, mynta. Alveg fínasta hvítvín.
White
2011 R. López de Heredia Rioja Blanco Viña Gravonia Spain, La Rioja, La Rioja Alta, Rioja
87 points
Mjög dökkt á litinn miðað við hvítvín. Gylltir tónar í lit. Sæta og kókos í ilmi. Svo eikartónar á bak við. Mjög undarlegt á bragðið. Mjög mikil eik á tungu en svo voru þarna tónar sem minntu á marsípan. Kransakaka jafnvel? Mér datt í hug að þetta gæti farið vel með paté. Áreiðanlega vel gert vín en hentaði mínum bragðlaukum ekkert sérstaklega vel. Hefði gefið þessu svona 85-87 stig miðað við þessi fyrstu kynni.
Ég tók svo flöskuna með heim. Það voru á að giska ⅔ eftir í flöskunni og að þessu sinni komst hún ósködduð á áfangastað. Daginn eftir þá tókum við það út á pall. Það var mjög svipað og kvöldið áður allavega til að byrja með. Það var samt talað um að það væri villisveppailmur af því nánar tiltekið ilmur af furusvepp. Myndi ekki segja að þetta vín hentaði vel úti á palli. Of þungt og drungalegt til þeirra nota. Um kvöldið prófuðum við svo að hafa það með frekar þungum pastarétti. Sósan gerð úr osti, gráðosti og sýrðum rjóma. Þar að auki var í réttinum steikt paprika og beikon. Til að byrja með þá var vínið ekki að gera sig neitt sérstaklega vel með matnum þangað til Hildigunni datt í hug að setja klaka út í vínið. Það gerbreytti víninu. Það varð miklu léttara og þægilegra. 85-87 fyrir klaka en 87-88 eftir. Allt í lagi hvítvín og áhugavert að hafa smakkað en ég fer ekki að kaupa það. Það er alveg klárt.
White
2017 Dominio do Bibei Ribeira Sacra Lapola Spain, Galicia, Ribeira Sacra
90 points
Ljós litur. Peruilmur og lykt af sætum eplum. Engjaangan og líka kryddtónar. Ferskur og frískur ilmur. Mjög ferskt á tungu. Flott sýra og vínið í góðu jafnvægi. Smjörtónar í bragði.
White
2017 Bodegas Avancia Godello Old Vines Spain, Galicia, Valdeorras
87 points
Mjög þung lykt. Hunang, ger, melóna, ástaraldin. Þykkt á bragðið. Ferskjur, blæjuber. Mér fannst það frekar skrítið á bragðið. Vantaði ferskleika. Ekki alveg að gera sig í hraðsmakkinu.
White
2017 Celler Marc Ripoll Sans Priorat Cal Batllet Escanya-Vella Spain, Catalunya, Priorat
87 points
Annað hvítvín í hraðsmakkinu sem er búið til í afskaplega takmörkuðu magni. Í nefi þurrt niðurfall (skrautyrði fyrir klóak) og jarðarber. Mjög sérstakt á bragðið. Smjör, steinefni, kalk. Beiskja, greipaldin. Svolítið hrátt í byrjun en kom til í glasinu. Ég sá svo að ég hafði smakkað þetta vín tvisvar áður og gefið því mun hærri einkunn þá. Erfitt að réttlæta það út frá því sem við upplifðum í þetta skiptið.

Flight 2 - Nokkur rannsóknarefni (4 notes)

1. Hvaða áhrif hefur loftun á Ferrer Bobet Vinyes Velles.
2. Bornir saman tveir árgangar af Peter Lehmann Mentor.
3. Hvernig smakkast 205€ vín? La Rodeda tekið til kostanna.

Red
2013 Ferrer Bobet Priorat Vinyes Velles Spain, Catalunya, Priorat
89 points
Víninu var umhellt í fjóra tíma fyrir smökkun. Lokað miðað við það. Gult UHU lím, lakk og grænjaxlar í nefi. Síðan komu fjólur og lofnarblóm og enn síðar kaffi og lakkrís. Á tungu dökkur ávöxtur og apótekaralakkrís. Svolítið hrjúft og ekki í nógu góðu jafnvægi. Batnaði svo í glasi. Einhver nefndi að alkóhól væri áberandi. Björgvin þolir ekki þetta vín en ég held að flestir aðrir hafi verið nokkuð sáttir við það.
Red
2013 Peter Lehmann Mentor Cabernet Australia, South Australia, Barossa
84 points
Þegar var þefað af glasinu þá voru sólber alveg rosalega áberandi. Vínið ilmaði bókstaflega eins og ribena safi. Þegar það var smakkað þá kom ekki á óvart að sólber voru áberandi. Síðan reyndist það mjög brennt. Frekar óspennandi. Vantar sýru, vantar karakter. Bakað vín. Kom þó í ljós að það skánaði aðeins í glasinu. Ekki góð frammistaða samt fyrir vín sem kostar 5.500 kr.
Red
1999 Peter Lehmann Mentor Australia, South Australia, Barossa, Barossa Valley
93 points
Flaska sem hafði verið geymd ekki við bestu aðstæður í langan tíma. Ryðlitur á víninu. Til að byrja með þá var kattarhland og kork að finna í nefi. Svo tóku soðnir tónar. Sveskjulykt og fíkjur. Eftir að hafa þefað af víninu þá bjóst ég ekki við neinu, jafnvel að vínið væri alveg ónýtt. Það var nú eitthvað annað. Reyndist bera aldurinn vel þrátt fyrir geymsluaðstæður. Bökunartónar á tungu. Flott jafnvægi. Það fór síðan batnandi í glasi allan tímann. Í lokin kom svo í ljós svakalegt set í flöskunni. Virkilega skemmtileg flaska.
Red
2017 Familia Nin-Ortiz Priorat Nit de Nin La Rodeda Spain, Catalunya, Priorat
95 points
Víninu var umhellt í tvo tíma. Dökkur litur. Kaldir tónar. Dökk lykt. Bökunarskápur, bökunarkrydd, kaffi, dökkt súkkulaði. Líka límtónar, lakk og ferskt hrossatað. Á tungu dökkir ávextir, krydd m.a. negull. Frábært jafnvægi. Mjög mikill ferskleiki. Mjög mjúkt. Vínið virðist vera með víðan drykkjarglugga. Alveg tilbúið núna, fjögurra ára, með tiltölulega stuttri umhellingu og á alveg örugglega eftir 7-10 fín ár.

Flight 3 - Heimshornaflakk (7 notes)

5 klúbbfélagar fengu úthlutað landi eða löndum sem þeir áttu að velja vín frá. Þessi hluti var að miklum hluta smakkaður blint.

Red
2013 Peter Lehmann Shiraz Stonewell Australia, South Australia, Barossa, Barossa Valley
89 points
Mjög dökkt á litinn. Í nefinu brómber, harpix, fura, kólalykt. Síðan komu sólber, mynta og brenndir dökkir tónar. Mjög margbreytileg og skemmtileg lykt. Síðan þegar smakkað var á víninu þá voru þar talsverð tannín ásamt mikilli sýru. Brenndir tónar komu fyrir en ekki mikill ávöxtur. Þegar við smökkuðum fyrst á víninu hefði ég gefið því 86-87. Það vann þó á með tíma í glasi og ég myndi gefa því 89 eins og það var orðið undir lokin. Líklega myndi umhelling gera þessu víni gott. Mér finnst þetta nú ekkert stórkostleg frammistaða því þetta er dýrt vín, kostar um 7.500 kr.
Red
2016 Perelada Empordà 5 Finques Reserva Spain, Catalunya, Empordà
88 points
Bláber, blóm, aðallega fjólur í ilmi. Einnig kjallaralykt. Frekar dökkir tónar í ilmi. Þægilegt á tungu. Ferskt með myntutónum. Þarna kemur líka fram eik og brenndir tónar. Virkilega flott vín, alltaf.
Red
2015 Il Poggione (Proprietá Franceschi) Brunello di Montalcino Italy, Tuscany, Montalcino, Brunello di Montalcino
92 points
Víninu var umhellt ca. tveimur klukkutímum fyrir smakk. Hellt í aðra flösku og svo strax til baka. Meðaldökkt á litinn, jafnvel tæplega. Í nefi hitaveitulykt, reykt kjöt, blóð. Frekar lokað. Þegar smakkað var á víninu komu fram kirsuber, málmbragð, og rafhlöðueinkenni. Mjög sýruríkt. Batnar í glasi. Miðað við þessa fyrstu frammistöðu myndi ég ekki gefa þessu víni háa einkunn.
Ég tók svo vínið með heim með það fyrir augum að smakka það daginn eftir. Á degi tvö var allt annað að sjá til vínsins. Hitaveitutónarnir sem voru áberandi í byrjun, fyrri daginn voru alveg horfnir. Vínið er samt enn mjög sýruríkt. Myndi líklega henta vel með einhvers konar feitum réttum. Miklu betra jafnvægi og almennt miklu flottara en fyrra kvöldið.
Ef þetta vín er opnað núna þá þarf það alveg talsverðan tíma í umhellingu. Svo væri líka hægt að bíða í 3-5 ár. Þá ætti það að vera farið að koma til. Var undir 90 (87-89) fyrra kvöldið en ég myndi segja 90-92 seinni daginn (nær hærri tölunni). Gæti trúað að það gæti nálgast 93 eftir nokkur ár. Ég gæti alveg hugsað mér að kaupa nokkrar flöskur af þessu víni.
2 people found this helpful Comment
Red
2017 Bodegas Escorihuela Gascón Malbec Gran Reserva Argentina, Mendoza, Lujan de Cuyo, Agrelo
86 points
Frekar dökkt á litinn. Í byrjun hitaveitulykt af víninu en það rauk úr því. Fersk ber, krydd, pipar. Frekar þung lykt. Síðan komu fram vanillutónar. Vanillubúðingur og rjóma vanilla. Á tungunni svolítið biturt. Heitt, sólbakað. Í lokin kom svo fram lakkrís. Dálítið klossað og þungt.
Red
2018 Bodegas Escorihuela Gascón Malbec 1884 Reservado Argentina, Mendoza
88 points
Við vorum ekki alveg sáttir við hvernig Escorihuela Gran Reserva kom út og af því að Escorihuela 1884 var til hjá Ólafi Andra þá var ákveðið að opna til samanburðar. Það hljóp mikið kapp í menn og gekk erfiðlega að smala saman einhverjum nótum að ráði. Það kom þó fram að þarna voru svipaðir ilmtónar og í Il Poggione víninu frá því áður. Semsagt blóð, beikon en einnig komu þarna fram brunatónar. Á tungu var þetta vín miklu léttara, þægilegra og skemmtilegra en gran reservan.
1 person found this helpful Comment
Red
2017 Viña San Pedro Cabernet Sauvignon Cabo de Hornos Chile, Rapel Valley, Cachapoal Valley
91 points
Frekar dökkt eða jafnvel dökkt á litinn. Í nefi: Sólber, græn paprika, kattarhland. Svo var talað um blautt tóbak og krydd. Þegar bragðað var á víninu þá var það frekar þungt. Talað um að miðjan á því væri þunn. Annars myntu og ekvalyptus tónar. Ferskleiki og ákveðin sæta. Alveg þokkalegasta vín en ekki ódýrt.
Red
2016 Quinta do Crasto Tinta Roriz Douro Portugal, Douro
Þegar hér var komið sögu þá var farið að svífa á mannskapinn. Gekk illa að ná einhverjum fókus og því held ég að sé best að sleppa einkunn á þessu víni. Það sem kom fram var hins vegar að það var mjög mikið krydd þarna. Nefndar voru kardimommur. Það kom líka fram að þetta væri samsoðið. Amarone líkt. En ólíkt Amarone í flestum tilvikum þá voru mikil tannín þarna. Flott vín en leið fyrir að vera síðast á dagskránni.

Closing

Hraðsmakkið kom vel út. Þar voru fyrir mína parta tvö mjög spennandi hvítvín. Í öðrum hlutanum var mjög skemmtilegt að sjá gamlan Mentor, sem hafði verið geymdur við ekkert sérstök skilyrði, vaxa eftir því sem á leið kvöldið. í þeim hluta smökkuðum við líka Rodeda vínið sem var alger toppur á smakkinu. Það var kannski minnst um óvænta hluti í síðasta hluta smakksins en mér fannst þó mjög áhugavert að fá að smakka 2015 árgang af Brunello. Fínt smakk.

© 2003-24 CellarTracker! LLC.

Report a Problem

Close